Um Okkur

Hestaleigan Áshestar er staðsett á bænum Stóra-Ási í Borgarfirði. Áshestar er lítið fjölskyldufyrirtæki í eigu Höskuldar Kolbeinssonar og Ragnhildar Önnu Ragnarsdóttur. Höskuldur og Ragnhildur búa á Stóra-Ási ásamt dóttur sinni, Lísbetu Láru og foreldrum Höskuldar, þeim Kolbeini Magnússyni og Láru Kristínu Gísladóttur.

Höskuldur er uppalinn á Stóra-Ási og hefur stundað hestamennsku frá því hann man eftir sér. Hann er menntaður búfræðingur og húsasmiður og starfar við smíðar ásamt því að sinna búskapnum á jörðinni. Ragnhildur er uppalin í Kópavogi og byrjaði að stunda hestamennsku þar á unglingsárum. Hún er menntaður búfræðingur auk þess að vera með BSc-gráður í búvísindum og hestafræðum. Yfir vetrartímann starfar hún við grunnskólann á svæðinu en á sumrin sér hún alfarið um hestaleiguna. Höskuldur og Ragnhildur hafa bæði starfað við tamningar og þjálfun hrossa en undanfarin ár hafa þau aðallega stundað hestamennskuna sjálfum sér til skemmtunar.

Us
Horses running

Hestarnir okkar

Á Stóra-Ási er stundaður blandaður búskapur með hesta, sauðfé og holdanautgripi. Bærinn er hvað þekktastur fyrir hestana sem frá honum koma en Kolbeinn og Lára hafa ræktað hesta í áraraðir við góðan orðstír og má þar helst nefna gæðingana Nótu, Trymbil og Flygil frá Stóra-Ási.

Alls eru um 70 hestar á bænum en eingöngu eru um 15 hestar notaðir við hestaleiguna sjálfa. Okkur þykir mjög vænt um hestana okkar hvort sem þeir þjóna okkur í hestaleigunni eða öðru og leggjum mikla áherslu á að þeim líði sem allra best.

Íslenski hesturinn og smitsjúkdómavarnir

Mjög mikilvægt er að fólk geri sér grein fyrir því hversu viðkvæmur íslenski hesturinn er fyrir ýmsum sjúkdómum. Vegna landfræðilegrar einangrunar og strangra innflutningsreglna hefur íslenski hrossastofninn verið laus við marga alvarlega smitsjúkdóma sem eru landlægir í öðrum löndum. Óheimilt er með öllu að flytja til landsins notuð reiðtygi hvers konar og reiðhanska. Notaðan reiðfatnað má eingöngu flytja til landsins hafi hann verið hreinsaður og sótthreinsaður í samræmi við þar til gerðar reglur. Sjá nánar á vef Matvælastofnunar.

Sjá nánar á vef Matvælastofnunar

g29

Hvar erum við

Stóri-Ás er staðsettur á Vesturlandi, í um 1 ½ klst. akstursfjarlægð frá Reykjavík og í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Borgarnesi. Helstu ferðamannastaðir í nágrenni Stóra-Áss eru: Brúarás – Geo Center, Hraunfossar, Húsafell, Reykholt, The Cave (Víðgelmir) og Deildartunguhver. Eru allir þessir staðir í innan við 20 mínútna akstursfjarlægð. Þá er lagt upp frá Húsafelli til að fara í skoðunarferð í íshellinn á Langjökli á vegum Into the glacier.

Okkar Þjónusta

Hestaleigan Áshestar býður upp á 1 – 1 ½ klst, langa reiðtúra með leiðsögn í fallegri náttúru. Riðið er meðfram bökkum Hvítár og er útsýnið stórkostlegt.Það að ferðast um á hestbaki í friðsælli náttúru þar sem Eiríksjökull skartar sínu fegursta er engu líkt.

Fyrir þá sem ekki vilja fara í reiðtúr er boðið upp á 20 mínútna undirteymingu sem farin er í nágrenni við bæinn.

Hestaleigan Áshestar er frábær afþreying fyrir alla. Við sníðum ferðirnar eftir þörfum gesta okkar og henta þær því bæði vönum jafnt sem óvönum.

Áður en lagt er af stað í reiðtúr er ávallt farið yfir helstu grundvallaratriði reiðmennsku og gestir látnir prófa hesta sína inni í litlu gerði. Er það gert til þess að gestir kynnist hestunum sínum aðeins og fái tilfinningu fyrir þeim áður en lagt er af stað í sjálfan reiðtúrinn. Að okkar mati eykur það öryggi og vellíðan gesta, og þar af leiðandi njóta reiðtúrsins betur og upplifunin verður meiri.

 

Family

Áshestar Upplýsingar

Email: contact@ashestar.com
Sími: +354 847 70 51
Staðsetning: Stóri Ás
311 Borgarfjörður

Icelandic Tourist Board

© Áshestar 2018. All rights reserved

is_ISIcelandic
en_USEnglish is_ISIcelandic